Andleg vanlíðan er í raun mun algengari en fólk gerir sér grein fyrir. Allir ganga í gegnum einhverja erfiðleika á lífsleiðinni, svo sem ástvinamissi eða hjónabandsörðugleika, og flestir upplifa á einhverjum tímapunkti neikvæðar tilfinningar, svo sem depurð eða kvíða. Allir eiga líka misgóðar minningar og margir burðast með einhvern sársauka í gegnum lífið. Þó svo að heilinn sé stórkostlegt líffæri þá getur hann líka verið okkur til trafala. Það er til að mynda svo gott sem ómögulegt að stroka út minningar að vild. Eins gerir heilinn okkur oft engan greiða með þeim þúsundum misgáfulegra hugsana sem fara í gegnum hugann á degi hverjum. Algengt er að fólk lendi í stríði við hugsanir sínar og tilfinningar og reyni að bægja þeim burt. Þegar þetta heppnast ekki, sem það gerir oft ekki, getur fólk fyllst vanmáttarkennd sem eykur enn á vandann. Þetta stríð getur því endað með ósköpum og algengar birtingarmyndir eru kvíði, þunglyndi og neikvæð sjálfsmynd. Margir kannast þó við að glíma við andlega erfiðleika á einhverjum tímapunkti án þess að greiningarviðmiðum fyrir geðraskanir, svo sem kvíða og þunglyndi, sé endilega náð. Sjálfsagt er að leita sér aðstoðar hvert svo sem alvarleikastigið er.
Myndbandið hér til hliðar lýsir vel þeirri upplifun að glíma við þunglyndi. Einkennum þunglyndis er líkt við stóran svartan hund sem þvælist fyrir í lífinu. Hann dregur úr lífsgleði og sjálfstrausti og truflar minni og einbeitingu. Allt umhverfið litast af viðveru hundsins, hann ýtir undir neikvæðar hugsanir og pirring. Eitt helsta verkefni einstaklingsins sem burðast með hundinn verður að reyna að fela hann af ótta við fordóma. Langvarandi viðvera hundsins getur jafnvel valdið algjörum tilfinningadoða, ekki síst eftir margar árangurslausar tilraunir til að reka hann á braut. Mikilvægt er að leita sér aðstoðar í baráttunni við svarta hundinn. Markmiðið er ekki endilega að losa sig alveg við hann heldur leggja niður vopnin og læra að lifa með honum.